Mælingadeild

Sjótækni hefur nú stofnað deild innan fyrirtækisins sem sérhæfir sig í haf- og vatnarannsóknum. Deildin mun einbeita sér að hverskonar botn- og dýptarmælingum, sýnatökum af sjávarbotni, setþykktarmælingum og kjarnaborun ásamt landmælingum  og kortagerð.  Með kaupum á nýjustu tækjum á því sviði er nú hægt að dýptarmæla og útbúa þrívíddarkort af stöðum sem ekki hafa verið aðgengilegir áður.

 

Fjölgeislamælingar:

Til að mæta nútíma kröfum um nákvæmni, hraða, öryggi og möguleika, ákváðum við hjá Sjótækni, að fara ótroðnar slóðir með tækjaval fyrir botnmælingarnar. Um er að ræða fjarstýrðan bát, sem er forritaður með fyrirfram ákveðinni siglingarleið, eða að honum er stýrt frá landi eða öðrum bát, fyrir tilstilli myndavéla um borð.

Með því að fara þessa óhefðbundnu leið til að mæla botninn, er hægt að bjóða upp á mun skjótari viðbrögð og hægt er að fara á staði sem ekki hefur verið hægt að mæla áður. Einnig er hægt að mæla þar sem ekki hefur verið talið ráðlegt vegna áhættu við að senda mannaðar áhafnir. Sem dæmi má nefna inntök og inntaksskurði virkjana, fráveituskurði og þar sem straumar og sog skapa hættur. Skipaumferð og þröng svæði eru ekki lengur hindrun fyrir mælingabát af þessari gerð.

 

 

 

 

Tæknilegar upplýsingar:

Báturinn er 200 cm á lengd, 105cm á breidd og 85 cm á hæð. Hann vegur um 95 kg.

Hann er rafdrifinn, sem þýðir að ekkert kolefnisfótspor hlýst af notkun hans. Rafhlöðuhleðslan dugar í 10 klst mælingarferð. Þar sem báturinn kemst fyrir í venjulegum sendiferðabíl eða kerru, er fljótlegt og auðvelt að flytja hann hvert sem er. Tveir menn geta borið hann á milli sín og sett hann á flot, nánast hvar sem er, eða að hann er settur á flot með löndunarkrananum.

 

 

 

 

Enn fleiri nýjungar:

Eins og sjá má á þessari útskýringarmynd, eru tvö mælingartæki um borð í bátnum. Bláu geislarnir tákna fjölgeislamælinn og svæðið sem hann nær yfir á sjávarbotni en rauðu geislarnir tákna Laser skanna, sem getur mælt nágrennið fyrir ofan vatnsyfirborðið. Með þessari tækni fæst heildstæð þrívíddarmynd af sjávarbotninum og landinu í kring. Þetta gerir það að verkum að nú er engin þörf á að senda mælingarmann á landi, til að mæla nágrennið. Þetta er sérstaklega hentugt þegar verið er að reikna út efnismagn í brimvarnargarða, landfyllingar og slíka vinnu. Einnig sést afstaða til sjávarbotnsins mikið betur, td. þegar verið er að leita að rörum, köplum eða týndum hlutum undir yfirborði vatns eða sjávar.

 

 

 

 

Fleiri möguleikar:

Til að auka þjónustu okkar við viðskiptavini og til að nýta tækin á sem mestan og bestan hátt, er möguleiki að taka Laser skannann af bátnum og nota hann stakann og á fleiri vegu. Td. er hægt að setja skannann á bifreið, þrífót eða jafnvel dróna, til að framkvæma þrívíddarmælingar á landi. Þetta gefur gríðarmikla möguleika á nákvæmum þrívíðum innmælingum á hafnarmannvirkjum, húsum, vegum, línuleiðum og öðru því sem þarf að innmæla á skjótan og nákvæman hátt.

Hér má sjá Lidar skanna af sömu gerð, undir dróna, þar sem verið er að framkvæma skoðun á háspennulínum.

 

Brýr og önnur vegagerð

Auk mælinga við landfyllingar og brimvarnargarða, er nú auðveldara að skoða brúarstöpla og undirstöður allskonar, vegna smæðar bátsins. Honum er auðveldlega hægt að sigla hringinn í kringum stöpla, til að framkvæma skoðanir á styrk og endingu þeirra. Ennfremur verður öll afstaða til brúarmannvirkisins auðsjáanlegri með tilstilli Lazer skannans.

Eins og fyrr segir, er sambland af þessari ofan- og neðansjávartækni, kjörin til að mæla landfyllingar bæði fyrir, milli  og eftir mælingar, við efnistöku og til að rúmmálsreikna efni sem komið er og reikna og áætla framgang verka út frá rúmmálsreikningum.

 Að geta mælt á sama tíma, bæði ofan- og neðansjávar, sparar gífurlegan tíma og gerir allar mælingar mikið nákvæmari en áður hefur þekkst, þar sem landmælingin er nú orðin mjög þéttriðið punktaský, en ekki einstaka punktar eftir  mælingarmann.

 

 

Setþyktarmælingar:   

Sjótækni bíður viðskiptavinum sínum að setþykktarmæla eða Seismic mæla hafsbotninn. Slíkar mælingar eru nauðsynlegar til að átta sig á efnismagni og til rúmmálsreikninga. Þeir sem eru að taka efni af hafsbotni, þurfa að geta áttað sig á hvað setlögin eru þykk og hvert flatarmál þeirra er. Einnig þarf að vera hægt að sjá hvar þau eru nákvæmlega. Þetta er allt hægt, með setþykktarmælingum okkar. Til viðbótar er auðvelt að sjá hvað er langt niður á klöpp eða harðan botn, þegar td. er verið að koma fyrir brúarstöplum, eða öðrum mannvirkjum, ss. vegagerð eða brimvarnargörðum.

 

 

 

 

 

 

Kjarnaborun:

Kjarnaborun er oft framkvæmd ásamt setþykktarmælingu til að staðfesta hvaða efni er í hverju setlagi neðan botns. Oftast er erfitt að mæla kornastærð eða efnisgerð hvers setlags, með setþykktarmælingu en kjarnaborun staðfestir efnisgerð í hverju setlagi. Þannig er hægt með mikilli nákvæmni, að sjá hvaða efnisgerð er í hverju setlagi og með því er hægt að finna rétta kornastærð eða efnisgerð sem leitað er að. Einnig er auðveldara að áætla burðarþol undirlagsins við mannvirkjagerð.

 

 

 

 

 

 

 

 

Gripkló:

Ef taka þarf sýni af hafsbotni höfum við yfir að ráða svokallaðri gripkló sem hægt er að slaka niður á botn. Hún er forspennt áður en hún er send niður og lokast sjálfkrafa, þegar hún lendir á botninum. Þannig grípur hún inn í sig allt efni eða gróður sem undir henni er. Þetta er lokuð skófla og heldur sýninu inni í sér á leið upp á yfirborð. Þessi aðferð er sérlega hentug til rannsókna ýmiskonar án aðkomu kafara. Hægt er að festa við hana myndavél sem sýnir bæði klónna og botninn samtímis, og með því er auðveldara að ná því sem þarf. Ódýr og góð lausn.