Sjótækni tekur þátt í prófun á umhverfisvænni ásætuvörn

Prófunarsvæðið á síðum Kafara BA, samanburður milli hefðbundinnar botnmálningar, ásætuvarnar Hripu og botnmálning án kopars
Prófunarsvæðið á síðum Kafara BA, samanburður milli hefðbundinnar botnmálningar, ásætuvarnar Hripu og botnmálning án kopars
1 af 2

Sjótækni og sprotafyrirtækið Hripa ehf eru nú í samstarfi um að prófa nýja gerð af umhverfisvænni ásætuvörn til notkunar í sjó. Sprotafyrirtækið Hripa ehf hefur með styrk frá Tækniþróunarsjóði þróað ásætuvörn án allra eiturefna, sem geta skaðað umhverfi og lífverur í sjó.  Í samstarfi við Náttúrustofu Vestfjarða og með aðstoð frá fyrirtækjunum Arctic Fish og Egersund Ísland hefur Hripa gert prófanir með ásætuvörnina fyrir fiskeldisnet undanfarin tvö ár og eru niðurstöðurnar mjög jákvæðar.

Þegar rannsóknarskipið Kafari BA var í slipp í Njarðvík í mars s.l. var ásætuvörnin frá Hripu borin á ákveðin svæði neðan sjólínu á báðar hliðar bátsins og verður spennandi að fylgjast með hvernig hún virkar þar í samanburði við venjulega botnmálningu.

Hripa hefur sótt um alþjóðlegt einkaleyfi fyrir ásætuvörninni og eru nú margvíslegar frekari rannsóknir í gangi á virkni ásætuvarnarinnar, sem og skaðleysi gagnvart fiski og öðru sjávarlífi í samstarfi við fleiri aðila á Íslandi, í Noregi og í Svíþjóð.

Sjótækni leggur mikla áherslu á að lágmarka umhverfisáhrif starfsemi sinnar og að efni og vörur sem fyrirtækið notar hafi sem minnst umhverfisáhrif. Það er því afar jákvætt og í samræmi við umhverfisstefnu Sjótækni að aðstoða við þróun á umhverfisvænni ásætuvörn, sem mikil þörf er fyrir.

Mælingar í Djúpinu

Sólin skín á fjöllin sunnan við Ísafjarðardjúp
Sólin skín á fjöllin sunnan við Ísafjarðardjúp
1 af 3

Mælingabátur Sjótækni hefur verið á ferðinni í Ísafjarðardjúpi við mælingar á mögulegum kvíastæðum fyrir fiskeldi í vetur. Þegar kanna þarf botn og aðstæður fyrir kvíar kemur mælingabátur Sjótækni að góðum notum og sannar hann svo sannarlega máltækið „margur er knár þótt hann sé smár“. Það hjálpaði að sjálfsögðu til við verkið að veðrið var eins og best er á kosið og fjöllin við Ísafjarðardjúp settu upp sólarhattinn í tilefni dagsins.

Valur kominn til hafnar á Tálknafirði

Frá vinstri Björgvin Gestsson stjórnarformaður Sjótækni, Kjartan J. Hauksson, framkvæmdastjóri  og Jóhann M. Ólafsson en þeir tveir eru eigendur Sjótækni.
Frá vinstri Björgvin Gestsson stjórnarformaður Sjótækni, Kjartan J. Hauksson, framkvæmdastjóri og Jóhann M. Ólafsson en þeir tveir eru eigendur Sjótækni.
1 af 3

Á föstudaginn 19.03.2021 kom nýr vinnubátur Sjótækni ehf, Valur, til hafnar á Tálknafirði í fyrsta sinn og var af því tilefni boðið til móttöku um borð í bátnum í Tálknafjarðarhöfn. Íbúum á Tálknafirði, Patreksfirði og Bíldudal ásamt nágrönnum var boðið að koma og skoða nýja skipið og þiggja veitingar. Áður hafði verið boðið til móttöku í Reykjavíkurhöfn og á Akranesi þar sem viðskiptamönnum Sjótækni og velunnurum var boðið að koma og skoða skipið og þiggja veitingar. Fjöldi fólks kom um borð í bæði skiptin og leist vel á nýja bátinn. Kjartan J. Hauksson framkvæmdastjóri Sjótækni þakkar öllum kærlega fyrir að koma og gleðjast með okkur hjá Sjótækni í tilefni af komu nýja skipsins og fyrir góðar óskir okkur til handa. Fleiri myndir úr móttökunni í Reykjavík og Tálknafirði má finna hér á heimasíðunni undir Myndir og Vinnubáturinn Valur.