Aðgerðir í Flateyrarhöfn

Frá björgunaraðgerðum í Flateyrarhöfn í síðustu viku.
Frá björgunaraðgerðum í Flateyrarhöfn í síðustu viku.

Starfsmenn Sjótækni hafa unnið við björgun báta í Flateyrarhöfn síðan 16. janúar og hafa aðgerðir gengið vel þegar veður hefur leyft. Búið er að ná bátnum Blossa ÍS upp og hífa hann upp á bryggju. Einnig var báturinn Eiður ÍS dreginn að bryggju og festur þar en enn er eftir að snúa honum þar sem hann hafnaði á hvolfi í sjónum við snjóflóðið þann 15. janúar.

Veður hefur hamlað aðgerðum af og til en í vikunni tókst að koma bátnum Guðjóni Arnari að bryggju og dæla öllum sjó úr honum. Báturinn Brói KE var dreginn að bryggju af strandstað og hann bundinn við bryggju og sjó dælt úr honum. Einnig tókst að koma böndum á bátinn Sjávarperluna og tryggja hana við bryggju og hún var síðan hífð upp á bryggju þegar veður leyfði.

Myndir af björgunaraðgerðum má sjá undir flipanum myndir á heimasíðunni og þar undir albúminu Björgunaraðgerðir á Flateyri. Myndirnar eru flestar teknar af Páli Önundarsyni á Flateyri og við kunnum honum bestu þakkir fyrir afnotin af myndunum. Aðrar myndir eru teknar af Kjartani Haukssyni og Guðbjarti Ásgeirssyni.