Kafari BA í slipp í Njarðvík

Kafari BA kominn upp í slippinn í Njarðvík
Kafari BA kominn upp í slippinn í Njarðvík
1 af 5

Undanfarnar vikur hefur báturinn Kafari BA verið í slipp í Njarðvík í viðgerðum og endurbótum. Gert var við skrúfuna sem hafði látið á sjá, spilið yfirfarið og lagfært og vatnstankur hreinsaður. Einnig voru endurbætur á rekkverki og síðustykki bátsins sem var fært lítillega út ásamt endurbótum á stýrishúsi og gluggum á stýrishúsinu. Að síðustu var Kafari BA málaður hátt og lágt.

Kafari BA var smíðaður á Seyðisfirði 1979 og þjónaði sem ferja milli Árskógsstrandar og Hríseyjar í upphafi en frá 2008 hefur hann verið skráður sem rannsóknarskip og hefur verið notaður í margvíslegum verkefnum hjá Sjótækni svo sem við köfun, lagningu sæstrengja og eftirlit með lögnum í sjó fyrir ýmsa aðila um allt land.

Kafari BA var sjósettur í Njarðvík í morgun, 04. mars eftir viðgerðirnar og fer beint í verkefni sem bíða hans. Svo skemmtilega vill til að nýr bátur Sjótækni, Valur, sem smíðaður er í Noregi var einnig að koma úr slipp úti í Noregi og var settur um borð í flutningaskip í morgun sem mun flytja hann til Íslands.