Nemendur í starfsnámi í Sjótækni

Jóna Stefanía og Ísabella ásamt Guðjóni Kjartanssyni starfsmanni Sjótækni í fjörunni á Bíldudal þar sem starfsmenn Sjótækni eru að vinna við lagningu sjólagnar
Jóna Stefanía og Ísabella ásamt Guðjóni Kjartanssyni starfsmanni Sjótækni í fjörunni á Bíldudal þar sem starfsmenn Sjótækni eru að vinna við lagningu sjólagnar
1 af 4

Tálknafjarðarskóli hefur boðið nemendum á unglingastigi upp á starfsnám á vorönn í samstarfi við fyrirtæki í Tálknafirði. Tilgangur verkefnisins er að kynna nemendum þær atvinnugreinar sem eru með starfsemi á Tálknafirði og hvaða menntun nýtist í starfi í þeim atvinnugreinum. Þannig geta nemendur betur gert sér grein fyrir því hvort þeir hafi áhuga á þessum störfum í framtíðinni. Sjótækni tekur þátt í þessu verkefni Tálknafjarðarskóla og þær Jóna Stefanía og Ísabella hafa komið til okkar undanfarna þrjá miðvikudaga og kynnst starfsemi Sjótækni.

Þeim hefur verið sagt frá þeim fjölmörgu verkefnum sem starfsmenn Sjótækni vinna að svo sem köfun, þvottur á fiskeldisnótum, sjólagnir og mörg önnur verkefni sem Sjótækni kemur að.  Þær fóru líka um borð í bátinn Hauk þar sem Magnús skipstjóri og Gísli stýrimaður sýndu þeim þvottagræjuna sem notuð er við að þrífa fiskeldisnætur og auðvitað fengu þær að prófa að stýra græjunni. Jafnframt hafa starfsmenn Sjótækni sagt þeim frá þeim réttindum sem nauðsynlegt er að hafa til að geta starfað hjá fyrirtækinu og hvaða menntun og námskeið nýtast vel í starfi hjá Sjótækni. Síðasta daginn fóru þær stöllur á Bíldudal þar sem starfsmenn Sjótækni eru að vinna við sjólögn og sáu hvernig slíkt verk fer fram. Þær fengu einnig að prófa að fara inn í afþrýstiklefann sem Sjótækni á og er notaður við köfun á miklu dýpi auk þess sem hann er notaður ef meðhöndla þarf köfunarveiki.

Starfsmenn Sjótækni þakka þeim Jónu Stefaníu og Ísabellu fyrir samveruna og óska þeim góðs gengis og við hlökkum til að taka á móti næsta hópi nemenda á miðvikudaginn kemur.