Nýtt skip Sjótækni kemur í heimahöfn á Tálknafirði

Assa á siglingu á Hópinu á Tálknafirði
Assa á siglingu á Hópinu á Tálknafirði
1 af 5

Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að því að standsetja skip í eigu Sjótækni ehf á Tálknafirði sem alhliða vinnu- og dýpkunarskip. Skipið ber nafnið Assa BA og var áður í eigu Olíudreifingar hf og bar þá nafnið Laugarnes.

Assa kom í heimahöfn á Tálknafirði laugardaginn 05.09.2020 eftir viðkomu í Reykjavíkurhöfn til að sækja ljósleiðara sem á að fara að leggja í Berufirði á Austfjörðum. Assa er 41,28 m langt og 371 brúttótonn að stærð. Það er smíðað 1978 og var notað í olíuflutninga við Grænland áður en það var keypt hingað til lands í olíuflutninga hér.

Assa er stærsta skip sem skráð er á Tálknafirði. Ásamt Össu rekur Sjótækni ehf fjóra aðra báta sem notaðir eru í þjónustu við fiskeldisfyrirtæki og við lagnir sæstrengja auk annarra verkefna sem Sjótækni tekur að sér. Kjartan J. Hauksson framkvæmdastjóri og annar eigenda Sjótækni var að vonum ánægður með að vera kominn með skipið í heimahöfn tilbúið til verkefna.

Ætlunin er að nota Össu í ýmis verkefni fyrir Sjótækni svo sem við lagningu sæstrengja, dýpkunarframkvæmdir og önnur verkefni sem til falla.