Fleiri nemendur í starfskynningu

Guðbjartur kennir þeim Olu, Alexander og Nökkva að hnýta hnúta
Guðbjartur kennir þeim Olu, Alexander og Nökkva að hnýta hnúta
1 af 4

Tálknafjarðarskóli hefur boðið nemendum á unglingastigi upp á starfsnám á vorönn í samstarfi við fyrirtæki í Tálknafirði. Tilgangur verkefnisins er að kynna nemendum þær atvinnugreinar sem eru með starfsemi á Tálknafirði og hvaða menntun nýtist í starfi í þeim atvinnugreinum. Þannig geta nemendur betur gert sér grein fyrir því hvort þeir hafi áhuga á þessum störfum í framtíðinni. Sjótækni tekur þátt í þessu verkefni Tálknafjarðarskóla og undanfarna miðvikudaga voru þeir Patrekur, Arnór og Einar Össur hjá okkur og núna síðast voru þau Nökkvi, Alexander og Ola.

Patrekur, Arnór og Einar Össur kynntu sér tæki og tól í húsinu hjá okkur og fylgdust með þegar verið var að hífa dælustöðu upp úr Fálka BA og fara með hana inn í hús til að yfirfara hana fyrir sumarvertíðina. Auk þess var verið að hífa prammann okkar upp á bryggju þar sem notkun hans var lokið að sinni. Seinni miðvikudaginn fengu þeir svo að fara um borð í Hauk BA og prófa þvottaróbotinn okkar og skoða allt um borð í bátnum.

Nökkvi, Alexander og Ola komu til okkar miðvikudaginn 11.03.2020 og þegar þau höfðu kynnt sér starfsemi Sjótækni innandyra, prófað köfunarklefann og fleira tóku þeir Guðbjartur og Marteinn þau í kennslustund um hnúta og splæsingu. Það að kunna að hnýta Pelastik og fleiri hnúta er hverjum sjómanni nauðsynlegt og þá ekki síður að kunna að splæsa saman kaðla og bönd. Verknámið gekk vel hjá krökkunum og þau eru efnileg í hnútum og splæsingu.

Vegna hættu á veirusmiti hefur starfsnámi verið frestað um óákveðinn tíma og því koma ekki fleiri til okkar í Sjótækni meðan þetta ástand varir en vonandi verður hægt að taka upp þráðinn að nýju þegar vorar og við fáum fleiri krakka í heimsókn til okkar. Við hjá Sjótækni þökkum þeim krökkum sem hafa komið til okkar fyrir góða viðkynningu og vonum að þau hafi haft gagn og gaman af.

Nemendur í starfsnámi í Sjótækni

Jóna Stefanía og Ísabella ásamt Guðjóni Kjartanssyni starfsmanni Sjótækni í fjörunni á Bíldudal þar sem starfsmenn Sjótækni eru að vinna við lagningu sjólagnar
Jóna Stefanía og Ísabella ásamt Guðjóni Kjartanssyni starfsmanni Sjótækni í fjörunni á Bíldudal þar sem starfsmenn Sjótækni eru að vinna við lagningu sjólagnar
1 af 4

Tálknafjarðarskóli hefur boðið nemendum á unglingastigi upp á starfsnám á vorönn í samstarfi við fyrirtæki í Tálknafirði. Tilgangur verkefnisins er að kynna nemendum þær atvinnugreinar sem eru með starfsemi á Tálknafirði og hvaða menntun nýtist í starfi í þeim atvinnugreinum. Þannig geta nemendur betur gert sér grein fyrir því hvort þeir hafi áhuga á þessum störfum í framtíðinni. Sjótækni tekur þátt í þessu verkefni Tálknafjarðarskóla og þær Jóna Stefanía og Ísabella hafa komið til okkar undanfarna þrjá miðvikudaga og kynnst starfsemi Sjótækni.

Þeim hefur verið sagt frá þeim fjölmörgu verkefnum sem starfsmenn Sjótækni vinna að svo sem köfun, þvottur á fiskeldisnótum, sjólagnir og mörg önnur verkefni sem Sjótækni kemur að.  Þær fóru líka um borð í bátinn Hauk þar sem Magnús skipstjóri og Gísli stýrimaður sýndu þeim þvottagræjuna sem notuð er við að þrífa fiskeldisnætur og auðvitað fengu þær að prófa að stýra græjunni. Jafnframt hafa starfsmenn Sjótækni sagt þeim frá þeim réttindum sem nauðsynlegt er að hafa til að geta starfað hjá fyrirtækinu og hvaða menntun og námskeið nýtast vel í starfi hjá Sjótækni. Síðasta daginn fóru þær stöllur á Bíldudal þar sem starfsmenn Sjótækni eru að vinna við sjólögn og sáu hvernig slíkt verk fer fram. Þær fengu einnig að prófa að fara inn í afþrýstiklefann sem Sjótækni á og er notaður við köfun á miklu dýpi auk þess sem hann er notaður ef meðhöndla þarf köfunarveiki.

Starfsmenn Sjótækni þakka þeim Jónu Stefaníu og Ísabellu fyrir samveruna og óska þeim góðs gengis og við hlökkum til að taka á móti næsta hópi nemenda á miðvikudaginn kemur.

Aðgerðir í Flateyrarhöfn

Frá björgunaraðgerðum í Flateyrarhöfn í síðustu viku.
Frá björgunaraðgerðum í Flateyrarhöfn í síðustu viku.

Starfsmenn Sjótækni hafa unnið við björgun báta í Flateyrarhöfn síðan 16. janúar og hafa aðgerðir gengið vel þegar veður hefur leyft. Búið er að ná bátnum Blossa ÍS upp og hífa hann upp á bryggju. Einnig var báturinn Eiður ÍS dreginn að bryggju og festur þar en enn er eftir að snúa honum þar sem hann hafnaði á hvolfi í sjónum við snjóflóðið þann 15. janúar.

Veður hefur hamlað aðgerðum af og til en í vikunni tókst að koma bátnum Guðjóni Arnari að bryggju og dæla öllum sjó úr honum. Báturinn Brói KE var dreginn að bryggju af strandstað og hann bundinn við bryggju og sjó dælt úr honum. Einnig tókst að koma böndum á bátinn Sjávarperluna og tryggja hana við bryggju og hún var síðan hífð upp á bryggju þegar veður leyfði.

Myndir af björgunaraðgerðum má sjá undir flipanum myndir á heimasíðunni og þar undir albúminu Björgunaraðgerðir á Flateyri. Myndirnar eru flestar teknar af Páli Önundarsyni á Flateyri og við kunnum honum bestu þakkir fyrir afnotin af myndunum. Aðrar myndir eru teknar af Kjartani Haukssyni og Guðbjarti Ásgeirssyni.